turkey-tea-estate

Te er seyði sem búið er til úr laufblöðum og brumi af terunnanum (fræðiheiti: Camellia sinensis). Te getur þó einnig átt við efnin sem notuð eru til að brugga seyðið, þ.e.a.s. þurrkuð lauf teplöntunnar sem stundum eru bætt með kryddi, jurtum eða ávöxtum. Te er náttúruleg uppspretta koffíns og teofýllíns.
Jurtate á oftast við um seyði sem bruggað er án telaufa og inniheldur aðeins jurtir og ávexti. Dæmi um jurtate er rósaldinte og kamillute. Þar sem ekki er um raunverulegt te að ræða er oft talað um jurtaseyði. Í þessari grein er aðeins talað um te í bókstaflegri merkingu, þ.e.a.s. seyði úr telaufum.Um 3,2 milljónir tonna af tei voru framleidd á heimvísu árið 2004 (tölur frá FAO).

Teræktun

Terunninn vex villtur í heittempruðu monsún loftslagi Asíu við rætur Himalajafjalla og verður allt að fimm til fimmtán metra hár. Dæmi eru þó um 30 metra háa terunna. Mörg skordýr herja á teplöntuna, svo sem stökktifur, míti, tólffótungar og termítar.
Terunnar eru bæði ræktaðir í tempruðu og heittempruðu loftslagi. Í tempruðu loftslagi eru bestu aðstæðurnar hátt yfir sjávarmáli. Ræktaðir terunnar eru klipptir niður undir tvo metra til að auka laufvöxt og auðvelda aðgengi að laufblöðunum. Helstu ræktendur tes eru Indland, Kína, Bangladess, Pakistan, Íran, Srí Lanka, Taívan, Japan, Indónesía, Nepal, Ástralía, Argentína og Kenía. Innan teverslunarinnar eru Srí Lanka og Taívan enn kölluð sínum gömlu nöfnum, Ceylon og Formosa.

Verkun og flokkun

Þrjár megin gerðir tes — grænt, dökkt og svart — fást með mismunandi verkun telaufsins. Lauf terunnans byrja að visna og oxast fljótlega eftir að þau hafa verið týnd ef þau eru ekki þurrkuð. Ef þau eru þurrkuð snemma fæst grænt te en svart te ef þeim er leyft að oxast lengur. Dökkt te eða oolong te (mandarín: wūlóngchá eða „svart drekate“) er nokkurskonar millistig græns og svarts tes.
Verkunin er lík bruggun byggs, þar sem að mjölvi er breytt í sykur. Laufin dökkna smám saman þegar blaðgrænan brotnar niður og sútunarsýra losnar. Næsta skref er að ákveða hvenær stoppa á oxunina, en það er gert með því að hita laufin svo að vatn gufar upp.
Stundum er talað um gerjun telaufa þó svo að engin raunveruleg gerjun eigi sér stað, þar sem ekkert ger er til staðar og það myndast ekkert alkóhól. Ef ekki er fylgst vandlega með raka- og hitastigi vaxa sveppir í teinu. Ef það gerist valda þeir gerjun og myndun eiturefna sem sum hver eru krabbameinsvaldandi. Þegar raunveruleg gerjun á sér stað þarf því að henda uppskerunni.

 

Grænt te